Engar gjaldskrárhækkanir í leik- og grunnskólum Árborgar

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun breyttar forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014. Í forsendunum er gert ráð fyrir að engar hækkanir verði á gjaldskrám leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu.

Verða leikskólagjöld, gjöld fyrir skólavist og gjöld fyrir skólamat óbreytt frá yfirstandandi ári. Er þetta gert til að svara ákalli ASÍ og SA um samstöðu gegn verðbólgu.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, segir að með þessu vilj sveitarfélagið leggja lóð sitt á vogarskálar verðstöðugleika og jafnframt létta undir með barna- og fjölskyldufólki. Þá lækkar fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði þriðja árið í röð og fer álagningarstuðullinn úr 0,3% í 0,275%.

Bætt fjárhagsstaða sveitarfélagsins gerir því kleift að lækka með þessu álögur á heimilin. Áfram verður ókeypis fyrir börn og unglinga í sund, bókasöfn og almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins.

Þá beinir bæjarráð tilmælum til framkvæmda- og veitustjórnar að farið verði yfir forsendur gjaldskrárhækkana Selfossveitna út frá sömu sjónarmiðum.

„Allt er þetta liður í að bæta búsetuskilyrði íbúa og stemma stigu við verðbólgu í landinu,“ segir Ásta.

Fyrri greinJólasýning undir stiganum
Næsta greinFormannsskipti hjá Golfklúbbi Selfoss