Enga gáma á Litla Hraun

Páli Winkel fangelsismálastjóra hugnast ekki að Litla-Hraun verði stækkað til bráðabirgða með því að flytja þangað hús sem áður voru vinnubúðir þeirra sem reistu álverið á Reyðarfirði.

Páll segir að gámasölumenn hafi viðrað svipaðar hugmyndir við sig og nokkra ráðherra. Hann segir að höfuðvandinn sé sá að í Reykjavík séu tvö ónýt fangelsi og það þurfi að byggja fangelsi í staðinn fyrir þau. Það verði ekki gert með gámabyggð, hvorki í Reykjavík, á Litla-Hrauni né annars staðar. Það sem vanti sé gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi. Síðan þurfi að byggja upp varanlega á Litla-Hrauni, móttökuhúsnæði, starfsmannaaðstöðu og fangelsi. Gámar komi ekki í staðinn fyrir fangelsi til lengri tíma.

Með vinnubúðunum væri hægt að fjölga plássum á Litla Hrauni um 45–60 fyrir innan við 100 milljónir. Þessum hugmyndum hefur verið ágætlega tekið, bæði hjá þeim sem stýra Litla-Hrauni og eins af bæjaryfirvöldum í Árborg.

Frá þessu var greint í fréttum RÚV.

Fyrri greinFrjó umræða á málþingi Upplits
Næsta greinVerðmæti þýfisins nam milljónum króna