Endurunnið sjávarplast og bakteríudrepandi handföng

Ljósmynd/Aðsend

Samkaup hefur samið um framtíðarkaup á innkaupakerrum sem munu leysa eldri kerrur af hólmi. Um er að ræða umhverfisvænustu innkaupakerrur sem völ er á, en kerrurnar koma úr Oceans línu framleiðandans Araven, sem er brautryðjandi í endurvinnslu sjávarplasts á heimsvísu. Árlega er talið að átta milljónir tonna af rusli endi í sjónum og um 80% er plast, sem ógnar heilbrigði sjávar verulega.

„Kerrurnar eru endurunnar úr plasti sem fundist hefur í sjónum, þá einna helst veiðarfæri, sem eru stór hluti þess sem hefur hvað mest neikvæð áhrif á lífríki sjávar, en rannsóknir sýna að hefðbundið fiskinet er um 600 ár að brotna niður í sjónum. Á þeim tíma hefur netið gífurleg áhrif á allt lífríki neðansjávar. Miðað við stöðu mála núna stefnir allt í að árið 2050, verði meira plast og rusl í sjónum heldur en fiskar. Við álítum hlutverk okkar að gera það sem við getum og nýtum því þetta tækifæri til að tvinna saman þörfina fyrir nýja vagna og sporna við magni plasts í sjónum,” segir Stefán Ragnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Umhverfisvænsti kosturinn í dag
Samkaup hafa um árabil lagt áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæði með því að draga gífurlega úr öllu sorpi sem fellur til í hverri einustu verslun og hafa frá árinu 2015 haldið verkefninu „Minni sóun” á lofti, þar sem markmiðið er að gefa neytendum kost á að kaupa vörur sem farnar eru að nálgast síðasta söludag eða komnar þangað.

„Allt skiptir þetta máli. Við höfum sömuleiðis skipt út kælikerfum og dregið verulega úr allri notkun plasts í verslunum okkar. Þá höfum við höfum í gegnum tíðina staðið fyrir ýmiskonar átökum sem miða að því að sporna beint við plasti í sjó, m.a. staðið fyrir strandhreinsun umhverfis landið í samstarfi við Bláa herinn og fleira sem hefur opnað augu okkar fyrir því mikla magni plasts sem finnst í hafinu. Þar af leiðandi tókum við þetta skref og höfum endurnýjað kerruflotann, sem kominn var á tíma, og tókum inn kerrur í hefðbundinni stærð og barnastærðum auk handkarfa í þessari umhverfisvænu línu,” segir Stefán Ragnar.

Kerrurnar eru sem fyrr segir umhverfisvænsti kostur sem völ er á í dag. Þá eru þær einnig einstaklega hentugar til stöflunar og á þeim eru bakteríudrepandi handföng, sem er sannkölluð nýlunda.

„Undangenginn heimsfaraldur hefur kennt okkur ýmislegt og þetta er sannarlega afurð þess. Við erum flest öll farin að hugsa sóttvarnir með öðrum hætti en fyrir faraldur og því er þetta rökrétt viðbót við þjónustuna.”

Samkaup rekur yfir 60 verslanir um land allt, m.a. undir merkjum Nettó, Iceland, Krambúðarinnar og Kjörbúðarinnar.

Fyrri greinTvö víti í súginn í toppslagnum
Næsta greinUnglingalandsmót á Selfossi – loksins í þriðju tilraun