Meðferðarstofan Heilsulindin er starfrækt í kjallaranum í Miðgarði á Selfossi. Undir formerkjum hennar starfa nokkrir einstaklingar sem aðstoða fólk við að bæta heilsuna á óhefðbundinn hátt þegar aðrar aðferðir hafa ekki dugað.
Þar á meðal er Svandís Birkisdóttir, Bowentæknir, sem hefur náð ótrúlegum árangri með fólk og þá heilsukvilla sem hafa verið að hrjá það. Svandís lærði Bowentækni eftir að hafa sjálf náð undraverðum bata með hjálp Bowentækni eftir að hafa slasast alvarlega í bílslysi.
„Bowentækni er bandvefslosunarmeðferð og er ekki sambærileg við neina aðra líkamsmeðferð sem stunduð er í heiminum í dag. Það er erfitt að skilgreina hana með venjulegum hugtökum,“ segir Svandís í samtali við sunnlenska.is.
Heildræn meðhöndlun
Svandís, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, segir að Bowentækni sé aðallega græðandi meðferð. „Meðferðin felst í röð mjúkra hreyfinga yfir vöðva, sinar, taugar og aðra mjúka vefi og losar um spennu sem hefur byggst upp, í líkamanum.“
„Meðhöndlarinn notar fingurnar á ákveðnum svæðum líkamans. Hann beitir mildum þrýstingi til þess að koma af stað hreyfingu á vöðva og vefi. Við það fer í gang ferli í bandvef líkamans til að leiðrétta það sem er í ójafnvægi. Með bandvefslosunartækni er losað um spennu sem verður til þess að líkaminn fer að leiðrétta sig.

Bowentækni oft notuð með annarri meðferð
„Bandvefurinn heldur líkamanum saman og er gríðarlega sterkt en misþykkt efni. Hann er alls staðar í líkamanum, umlykur öll líffæri, æðar, taugar, alla vöðva, tengir þá við bein og er fylliefni milli líffæra. Það sem er líka svo sérstakt við bandvefinn er að hann er heill og óslitinn frá hvirfli til ilja,“ segir Svandís.
„Áhrifin af meðferðinni eru mjúk, þau ná djúpt og eru afslappandi. Þess vegna er Bowentæknin svo sérstök. Osteopatar, hnykkjarar, sjúkraþjálfarar og fleiri aðilar eru meðal þeirra mörgu starfstétta sem nota Bowentæknina. Allir þeir sem nota þessa meðferð furða sig á áhrifamætti þessarar mjúku og einföldu meðferðar,“ segir Svandís og bætir því við að Bowentæknir geti meðhöndlað alla, óháð aldri.
Missti heilsuna í kjölfar bílslyss
Sem fyrr segir fór Svandís að læra Bowentækni eftir að hafa sjálf kynnst áhrifamætti meðferðinnar. „Ég lenti í bílslysi 2005 og brotnaði í lið, neðst í baki, hálsi og vinstri öxl. Ég sem hjúkrunarfræðingur prófaði náttúrulega ýmislegt, bæði sjúkraþjálfun og lyf sem læknar gáfu mér. Ég prófaði einnig margt óhefðbundið. Allar meðferðir eru góðar en misjafnt hvað hentar hverju sinni.“

Svandís segir að hún hafi verið búin að prófa ýmislegt og ekkert virtist vera að hjálpa henni. „Læknirinn sagði við mig að því miður þá yrði ekkert meira hægt að gera fyrir mig og ég gæti ekki unnið aftur við það sem ég hafði lært. Hann sagði ég að ég gæti að hámarki náð 20% krafti með vinstri höndinni.“
„En svo kom góð kona til mín og sagði að hún hefði pantað þrjá tíma í Bowen fyrir mig vegna þess að þetta væri stöðugt að koma til hennar. Hún hafði sjálf ekki hugmynd um það hvað þetta var. Hún fékk alltaf nafnið mitt upp og Bowen, þannig að hún pantaði tíma fyrir mig.“
Fór á rassinum upp stigann
Svandís var sjálf mjög vantrúuð á Bowen þegar hún hóf sína meðferð. „Þegar ég mætti í fyrsta tímann, þá varð ég ekkert smá reið því að Bowentæknirinn var uppi á annarri hæð. Ég gat ekki gengið upp stiga en ég var bara svo kvalin og slæm að ég fór á rassinum upp. Ég fer inn og segi við meðhöndlarann ég hafi enga trú á þessu sem hann sé að fara að gera. Gerðu þetta bara og svo er ég farin.“
Svandís segir að eftir Bowentíma númer tvö hafi hún fundið að eitthvað var að gerast í líkamanum. „Í þriðja skipti þá eiginlega svona, já… þetta er eitthvað skrítið. Svo leið hálfur mánuður og ég fer í skipti númer fjögur og þarna var ég farin að ganga upp tröppurnar. Ég var ekki góð en ég var töluvert betri. Ég náði alltaf meiri og meiri styrk.“
„Þarna varð ég svo ofboðslega hrifin af því hvað þau náðu mér margfalt betri á stuttum tíma, bæði andlega og líkamlega. Öxlin tók lengri tíma að lagast. Ég þurfti að fara í aðgerð á öxlinni því hún brotnaði illa, sinar og taugar skemmdust líka. Þess vegna sagði læknirinn ég fengi ekki nema í mesta lagi 20% mátt í handlegginn. Í dag geri ég allt sem mér dettur í hug og ég nota höndina alveg jafnt á við hina og ég finn engan mun á því. Þarna var ég algjörlega heilluð að finna hversu hratt líkaminn greri og langaði því að læra þessa meðferð.“

Fyrir líkamleg og andleg áföll
Að sögn Svandísar er Bowentækni að vissu leyti svolítið svipuð höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. „Nema að það er auðveldara að meðhöndla Bowen í mörgum tilfellum, fólk þarf ekki alltaf að liggja á bekk, það má standa, sitja eða jafnvel vera á hreyfingu. Ég geri líka Bowen á dýrum, kornabörn koma til mín, einstaklingar með gigt, slæma verki og fólk með andleg sem og líkamleg áföll. Ég segi það að því meira sem vandamálið er, því meiri mun finnur það.“
Aðspurð hvort Svandís eigi sér einhverja uppáhalds sögu þar sem Bowentækni kemur við sögu segir hún svo vera. „Það var maður sem kom til mín sem hafði mjaðmagrindarbrotnað. Eftir aðgerð og sjúkraþjálfun kom hann til mín og sagðist ætti svo erfitt með að ganga vegna verkja og væri ekki með góðan mátt í fótum. Hann var búinn að prófa ýmislegt en langaði að prófa Bowen. Ég segi við hann að ég myndi meðhöndla heildina. Ég gæti ekki bara aðstoðað hann með verkina og máttinn í fótunum. Hann var í byrjun ekki alveg sáttur en sagði svo bara já en í skipti númer þrjú þá fann hann margfalt minna til og leið miklu betur. Áfallið við að lenda í slysinu, er bæði tilfinningalegt og líkamlegt, en þarna fékk líkaminn hjálp við að leiðrétta þetta til baka.“
Þess má geta að sá yngsti sem Svandís hefur fengið á bekkinn til sín er nýfæddur og sá elsti 94 ára.
Oftast duga þrjú skipti
„Bowen er snilld, hvort sem það er fyrir andleg eða líkamleg áföll. Oftast þarf bara þrjú skipti til að ná góðum árangri, stundum þarf fjórða skiptið. Svo er það góða við það, að ef einstaklingnum fer að versna einhverjum mánuðum síðar, eða ef eitthvað annað kemur upp á, þá þarf oft ekki nema eitt til tvö skipti til að líkaminn leiðrétti sig til baka. Það er eins og líkaminn muni það sem meðhöndlarinn hefur gert áður,“ segir Svandís að lokum.

