Endurheimti heilsuna á ullardýnu

Vilmundur og Svala Möller í verslun woolroom.is í Kópavogi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlendingurinn Vilmundur Sigurðsson hefur vakið mikla athygli að undanförnu fyrir sérstakar rúmdýnur sem hann flytur inn. Dýnurnar eru frábrugðnar öðrum dýnum að því leyti að þær eru að mestu búnar til úr ull.

Upphafið að þessu öllu saman voru óútskýrð veikindi sem Vilmundur hafði verið að glíma við í meira en áratug. Saga Vilmundar er sérstök að mörgu leyti en þó alls ekki einsdæmi.

„Ég var búinn að vera með tugi krónískra veikindaeinkenna og ganga á milli lækna á þeim tíma. Mikla þreytu, slæma verki, vefjagigtar- og liðagigtareinkenni, kulnunareinkenni og margt fleira sem væri of langt mál að telja upp hér,“ segir Vilmundur í samtali við sunnlenska.is.

Óttaðist það versta
„Ástandið versnaði stöðugt og sumarið 2017 var ég svo slæmur af bólgum í líkama og höfði að ég var farinn að óttast að kafna í svefni eða að ég væri með einhverskonar krabbamein,“ segir Vilmundur og bætir við að honum hafi þótt fáránlegt að vera ekki orðinn fimmtugur en vera farið að líða eins og gamalmenni.

„Mig fór að gruna myglu og skoðaði það. Við vorum búin að flytja fjórum sinnum á nokkrum árum og á einum tímapunkti losuðum við okkur við alla búslóðina þegar við fluttum til Danmerkur árið 2010. Þannig að ég hugsaði: Hvað er það sem hefur fylgt mér allan þennan sjúkdómstíma? Svarið var „rúmið“. Minnissvamps dýnan og minnissvamps koddinn. Ég gúglaði þessa dýnu og kodda og við mér blöstu amerískar hryllingssögur um fólk sem taldi sig hafa veikst frá minnissvampi í dýnum og koddum. Það eina í stöðunni var að taka mark á þessu, eins illa farinn og ég var orðinn. Við losuðum okkur strax við koddana og heilsan varð betri á nokkrum dögum, svo fóru dýnurnar mánuði seinna og heilsan varð miklu betri,“ segir Vilmundur.

Vilmundur segir að í kjölfarið hafi hann farið að spyrja sig hvað hafi orðið til þess að hann veiktist. Hann fór að lesa sig til um framleiðsluferlið á svampdýnunni og sá að dýnan innhélt mörg varasöm efni. 

Fjölmennur Facebook-hópur
„Eftir að hafa lesið slæmar sjúkdómssögur tengdar þessum svefnvörum stofnaði ég í kjölfarið Facebook-hópinn „Er rúmið mitt að drepa mig!“ til að sjá hvort fleiri Íslendingar hefðu upplifað þetta á svipaðan hátt. Á tveimur sólarhringum var hópurinn kominn í 4.000 manns og nú tveimur árum seinna er hann kominn í 6.500 manns,“ segir Vilmundur.

Ýmislegt hægt að gera
Vilmundur segir ýmislegt vera til ráða fyrir fólk sem telur veikindi sín stafa af minnissvampi. „Það fyrsta sem fólk ætti að gera er að skipta út koddanum og nota dúnkodda eða ullarkodda. Næst er að hindra útgufun mögulegra kemískra efna frá dýnunni. Best er að kaupa til dæmis húsgagna yfirbreiðsluplast í byggingarvöruverslunum og klæða dýnuna alveg í plastið, brjóta það undir dýnuna og leggja svo teppi, hlífðarlak og lak ofaná, og sofa þannig í tvær til fjórar vikur og sjá hvort að heilsan breytist til batnaðar,“ segir Vilmundur.

Að sögn Vilmundar ætti fólk að vera vakandi fyrir því hvort kvillar á borð við nætursvita, nefstíflur, hausverk og stirðleika á morgnana minnki eða hverfi ekki í kjölfarið. Vilmundur segir að þeir sem veikjast af dýnum og koddum verði næmir fyrir myglumengun og svo öfugt. Hann hafi reynt að fara til eftirlitsaðila á Íslandi og vekja þá til vitundar um þessa mengun en hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum.

„Ég sá það svo loksins fyrir einu ári, eftir árangurslausar tilraunir til að vekja eftirlitsaðila og söluaðila til vitundar um þetta, að eina lausnin væri að við hjónin og vinahjón okkar myndum hefja innflutning á heilnæmri svefnvöru,“ segir Vilmundur.

Hóf sjálfur innflutning á dýnum
Umræddar svefnvörur eru frá fyrirtæki í Englandi sem nefnist Woolroom. „Við stofnuðum woolroom.is fyrir hálfu ári eftir sex mánaða prófanir okkar á þessum vörum. Hugmyndin var að bjóða fólki upp á heilnæmar ullarsvefnvörur, án kemískra efna,“ segir Vilmundur og bætir við að þetta séu engar galdraafurðir heldur hreinar, lífrænar, endurvinnanlegar afurðir, án plastefna og hafa þannig engin neikvæð umhverfisáhrif.

Vilmundur segir að viðbrögðin við Woolroom ullarvörunum hafi verið stórkostleg. „Fyrir það fyrsta þá hefur mikið af fólki samband við okkur í woolroom.is og kemur til okkar í sýningarrýmið með ýmis krónísk vandamál, sem það telur tengjast svefnvöru. Þeir sem eru að hugsa um að kaupa dýnu, geta fengið lánsdýnu í allt að fimm nætur, sér að kostnaðarlausu til að sjá hvort breyting verði á heilsunni,“ segir Vilmundur að lokum.

Fyrri greinÆfingar skila árangri hjá Suðrafólki
Næsta greinÍslandsmeistararnir völtuðu yfir Fjölnismenn