Endurheimta votlendi við fuglafriðlandið

Friðlandið er í dag heimili 25 staðbundinna fuglategunda og með framkvæmdinni er verið að stækka svæðið umtalsvert. Ljósmynd/Einar Bárðarson

Skipulags- og byggingarnefnd Árborgar hefur samþykkt umsókn Votlendissjóðs um að loka gömlum skurðum vestan og sunnan við Óseyrarveg, við fuglafriðlandið í Flóa. Nefndin leggur það til við bæjarstjórn Árborgar að umsóknin verði samþykkt

Verkefnið er unnið í samvinnu Votlendissjóðs og Fuglaverndar Íslands en landsvæðið er í eigu Sveitarfélagsins Árborgar. Fuglavernd og Votlendissjóður hafa gert með sér samning um endurheimt votlendis í Friðlandinu Flóa í en markmið er að skapa betri búsetuskilyrði fyrir fugla og á sama tíma binda kolefni.

„Þetta verkefni er okkur mjög mikilvægt. Það er unnið að beiðni Fuglaverndar, umsjónaraðila svæðisins, í samráði og með samþykkt Árborgar. Friðlandið er í dag heimili 25 staðbundinna fuglategunda og með framkvæmdinni er verið að stækka svæðið umtalsvert. Okkur hlakkar mikið til að sjá afrakstur þessa samstarfs,“ segir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, í samtali við sunnlenska.is.

„Í dag er sjóðurinn að endurheimta votlendi á fjórum öðrum jörðum. Allar eru þær á Vesturlandi eða Vestfjörðum. Við lukum við 15 hektara af rúmlega 70 hektara svæði á jörðinni Fífustaðadal núna í byrjun ágúst en fyrri hlutinn var unnin í fyrra. Núna í lok ágúst vorum við að endurheimta 29 hektara á Snæfellsnesi við Grundarfjörð á jörð sem heitir Berserkseyri, þá erum við að vinna 55 hektara á jörð sem heitir Móberg á Rauðasandi og erum að hefja störf á Brekku á Ingjaldssandi,” bætir Einar við.

Votlendissjóður hlaut á dögunum tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Sjóðurinn var stofnaður árið 2018 og ári síðar hófust fyrstu framkvæmdir á vegum sjóðsins. Í dag hefur sjóðurinn endurheimt votlendi á um 400 hekturum.

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHalda samkeppni um minnisvarða fyrir Einvígi aldarinnar
Næsta greinNýi vegurinn undir Ingólfsfjalli opnaður á fimmtudag