Endurbygging Hrunarétta hefst

Fjárbændur í Hrunamannahreppi hefja á morgun endurbyggingu Hrunarétta en Sauðfjárræktarfélagið stendur að byggingunni í samstarfi við hreppinn og búnaðarfélagið.

Fyrsta verkið er að koma miðjusteini upp í almenningnum og verður það gert kl. 13 á morgun. Réttað verður í Hrunaréttum þann 10. september og eftir það verður farið á fullt við að grafa fyrir nýjum almenningi. Reisa á almenning og útveggi að mestu úr stuðlabergi og hafa fjárbændur í Hrepphólum, þau Ásta Oddleifsdóttir og Ólafur Stefánsson gefið allt bergið sem í það fer.

Þorsteinn Loftsson í Haukholtum verður yfirsmiður en leitað verður eftir sjálfboðaliðum til starfsins. Þá verður leitað til almennings um fjárframlög og þeir sem vilja styrkja uppbygginguna geta lagt inn á reikning Sauðfjárræktarfélagsins 0325-13-300859. kt. 650505-0850.

Réttin sem nú stendur er byggð á árunum 1953 og 1954 og er farin að láta verulega á sjá.