Endurbætur og uppbygging á Litla-Hrauni hafin

Fangelsið á Litla-Hrauni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nauðsynlegar endurbætur og uppbygging á Litla-Hrauni er nú hafin. Lengi hefur legið fyrir að húsnæði og aðstaða á Litla-Hrauni, stærsta fangelsi landsins, er ófullnægjandi á alla mælikvarða.

Alþjóðleg nefnd gegn pyntingum og vanvirðandi meðferð á föngum hefur gert alvarlegar athugasemdir við aðstöðuna á Litla-Hrauni og Vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við starfsaðstöðu fangavarða og fanga.

Ríkisstjórnin samþykkti í vor fjárveitingu til mikilla endurbóta og nú er áformað að byggja nýtt þjónustuhús, nýja varðstofu og nýtt fjölnotahús, auk þess sem ráðist verður í lagfæringar á núverandi húsnæði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Páll Winkel, fangelsismálastjóri, fyrir utan hegningarhúsið við Skólavörðustíg í gær, en það voru framkvæmdirnar kynntar. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

Til mikils að vinna
Framkvæmdakostnaður er áætlaður um 1,9 milljarður króna sem fellur til á árunum 2021 til 2023, en gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki á miðju ári 2023. Með þessum framkvæmdum er stefnt að því að ráðin verði bót á húsnæðisvanda fangelsisins og því komið í fullnægjandi horf. Þar að auki verði byggð upp aðstaða fyrir heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu fyrir allt fangelsiskerfið.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að ríkisvaldinu beri að sjá til þess að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins.

„Með bættri aðstöðu og aðstoð fagmanna náum við vonandi betri árangri í því að bygga upp einstaklingana sem eru í þessum aðstæðum og gera þeim kleift að byggja sig upp fyrir lífið utan fangelsisins þegar vistinni þar lýkur. Til mikils er að vinna. Hér erum við að hefja löngu tímabærar framkvæmdir og umbætur í fangelsismálum sem við sem þjóð getum ekki dregið lengur,“ segir Áslaug Arna.

Tæknilegt flækjustig og flókin hönnun
Farin verður svokölluð samstarfsleið í þessu verkefni sem felur í sér að verkframkvæmdir verða hannaðar í samstarfi við þann aðila sem fær verkið á grundvelli útboðs. Framkvæmdasýsla ríkisins telur að uppbygging og endurbætur við Litla-Hraun henti vel í formi samstarfsleiðar enda einkennist verkefnið bæði af háu tæknilegu flækjustigi og flókinni samhæfingu hönnunar og framkvæmdar í húsnæði sem jafnframt er í notkun á byggingartíma.

Varðturninn á Litla-Hrauni. sunnlenska.is/Egill Bjarnason

Turninn tekinn niður
Í fréttum RÚV í gær kom fram að meðal annars verði varðturn fangelsisins tekinn niður. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að það sé sömuleiðis táknrænt.

„Þessi turn lítur út eins og vélbyssuturn og hann hefur aldrei gegnt neinu hlutverki hér í fangelsiskerfinu. Hann er ógnvekjandi og ekki líklegur til að auka vellíðan fólks sem þar dvelur á okkar vegum,“ segir Páll.

Fyrri greinForðuðu því að stofnstrengur í Jökulsá slitnaði
Næsta greinSex marka sigur í Tékklandi