
Síðastliðinn laugardag útskrifuðust 28 nemendur frá Menntaskólanum að Laugarvatni; nítján af félags- og hugvísindabraut og níu af náttúruvísindabraut.
Dux nýstúdenta var Emma Ýr Friðriksdóttir frá Höfn í Hornafirði með einkunnina 9,13 og semi-dux nýstúdenta var Þórdís María Arnarsdóttir frá Reykjavík með einkunnina 8,95.
Dux scholae er svo reiknaður með einum aukastaf og er þar um að ræða hæstu heildareinkunn yfir allan skólann, skólaárið 2024-2025. Þar urðu efstar þær Emma Ýr, Þórdís María og Helga Dögg Ólafsdóttir frá Hvolsvelli, nemandi í fyrsta bekk, en þær voru allar með einkunnina 9,1. Semi dux scholae var nemandi í fyrsta bekk, Evelina Dorozka frá Flúðum, með einkunnina 9,0.
Þrjár fengu styrk úr styrktarsjóði Kristins og Rannveigar
Við hverja útskrift veitir Styrktarsjóður Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur á stúdentsprófi í formi fjárstyrks. Styrkþegar voru að þessu sinni þrír; þær Emma Ýr, Þórdís María og Sjöfn Lovísa Bahner Jónsdóttir. Viðurkenningin er veitt þeim sem skarað hafa fram úr með dugnaði og lofsverðri ástundun með von um að hún verði þeim hvatning til frekara náms.
Eyrún og Gunnar kvödd með virktum
Jóna Katrín Onnoy Hilmarsdóttir, skólameistari, þakkaði útskriftarhópnum sérstaklega fyrir glæsilegt framlag til skólans í ræðu sinni. Áslaug Harðardóttir áfangastjóri flutti annál skólaársins 2024-2025 og fór þar yfir viðburðaríkt ár sem einkenndist af kórsöng og gleði. Fulltrúar nýstúdenta og 20 ára júbílanta ávörpuðu hátíðargesti og voru að þessu sinni Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir fyrir hönd nýstúdenta og Jóhannes Helgason fyrir hönd 20 ára júbílanta.
Tveir starfsmenn skólans voru formlega kvaddir við athöfnina en það var annars vegar Gunnar Þorgeirsson sem unnið hefur ötult starf í þágu skólans undanfarin 25 ár, fyrst sem nefndarmaður og svo formaður skólanefndar ML. Hins vegar flutti skólameistari kveðju til Eyrúnar Jónasdóttur, sem stýrt hefur kór ML undanfarin 15 ár með miklum glæsibrag og hefur kórstarfið sannarlega sett mikinn svip á skólastarf að Laugarvatni. Voru þau kvödd með virktum og þakklæti að skilnaðargjöf var þeim afhentur blómvöndur og silfurnæla með merki skólans.
