Elti GPS tækið upp á Kjöl

Klukkan sex í morgun voru liðsmenn Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum kallaðir út vegna bíls sem var fastur í snjó uppi á Bláfellshálsi.

Þar var á ferð árrisull ferðamaður, einn á ferð, sem var á leiðinni á Akureyri. GPS tækið sem var í bílnum hafði ráðlagt þessa leið. Þó nokkur snjór er á hálsinum og ekki fært nema jeppum.

Í frétt á Facebooksíðu Eyvindar segir að það hafi verið mildi að ferðamaðurinn stoppaði á þessum stað og gat hringt en lítið símasamband er þegar komið er aðeins innar á hálsinn.

Björgunarsveitarmenn hvetja alla ferðamenn til að kynna sér færð og veður áður en lagt er af stað sérstaklega þegar ferðinni er haldið á heiðar og fjallvegi.

Þetta var sextugasta útkall Eyvindar á árinu.

Fyrri greinJóhanna vígð til þjónustu á Sólheimum
Næsta greinKiwanis gaf verkfæri á Jötunheima