Elsti Sunnlendingurinn látinn

Margrét Hannesdóttir frá Núpsstað er látin, 107 ára að aldri.

Margrét var fædd að Núpsstað árið 1904 og var elst tíu systkina. Eiginmaður hennar var Samúel Kristjánsson, sjómaður í Reykjavík, og áttu þau fimm börn; tvö þeirra eru nú látin. Margrét náði þeim merka áfanga að verða langalangalangamma en afkomendur hennar og Samúels eru orðnir hátt í 70 talsins.

Margrét var alla tíð við góða heilsu. Hún var með stálminni og gat sagt sögur af atburðum sem fáir muna eftir. Hún lýsti til að mynda Kötlugosinu 1918 í viðtali við Morgunblaðið fyrir fáum árum og sagðist aldrei hafa heyrt annan eins skruggugang. Lætin hafi verið óskapleg en Margrét var 14 ára þegar gosið hófst.

Margrét bjó ein síðustu 35 ár og lagðist í fyrsta skipti inná sjúkrastofnun þegar hún handleggsbrotnaði í febrúar í ár.

Margrét varð 107 ára þann 15. júlí sl. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í nótt.

Fyrri greinPopUp markaður á Selfossi
Næsta greinBanaslys í Landsveit