Elsti miðinn frá Whitesnake tónleikum í Víðidal 1990

Selfyssingurinn Óli Rúnar Eyjólfsson deildi mynd af ansi myndarlegu safni á Facebook á dögunum, en hann á aðgöngumiða að öllum tónleikum og dansleikjum sem hann hefur farið á frá árinu 1990.

Ef frá eru taldir tónleikar sem voru haldnir á 17. júní þá voru fyrstu stóru tónleikarnir sem Óli Rúnar fór á með hljómsveitunum Whitesnake og Quireboys í Reiðhöllinni í Víðidal um haustið árið 1990, þá þrettán ára gamall.

Óli Rúnar er fæddur og uppalinn á Selfossi en hann býr í Danmörku ásamt Ragnhildi Hauksdóttur eiginkonu sinni og börnum þeirra. Þar starfar Óli sem arkitekt.

Síðan skein sól á jólaballi
Þó svo að Whitesnakemiðinn hafi lagt grunninn að safninu þá er elsti ballmiðinn frá því Óli var á táningsaldri.

„Mér sýnist að elsti ballmiðinn sé á Jólaball Gagnfræðaskólans á Selfossi eða G.S.S. eins og hann var kallaður og það var stórhljómsveitin Síðan Skein Sól (SSSÓL) sem spilaði þann 20. desember 1990 og sennilega er það bara miði númer 2 í safninu,“ segir Óli sem á fleiri miða af grunnskólaböllum.

„Ég held að ég eigi flesta miða á jólaböll og árshátíðir. Ég á meira að segja miða af árshátíð Grunnskólans í Hveragerði en ég veit ekki alveg hvað við vinirnir vorum að sniglast þar.“

Handskrifaðir ballmiðar
Í þá daga var ekki hægt að treysta á þá tækni sem við þekkjum í dag en í fórum Óla Rúnars leynist handskrifaður ballmiði.

„Þetta er handskrifaður miði frá 18. desember 1992, jólaball með Poppsins flýgur, kostaði 500 kall inn og þetta er miði númer 112,“ segir Óli sem giskar á að á milli 200-300 miðar hafi verið gerðir en á bakvið þessa miða lá mikil vinna.

Helstu ballhljómsveitir á þessum tíma voru SSSól, Sálin, Nýdönsk og Jet black Joe en Óli segir að þessar hljómsveitir hafi spilað þriðju hverja helgi á skemmtistaðnum Inghól á Selfossi. „Svo komu sunnlensku böndin eins og Karma, Lótus, Tommi rótari, Poppins flýgur og svo auðvitað Skítamórall.“

Stevie Wonder eftirminnilegur
Síðustu tónleikar sem Óli Rúnar fór á var með amerískri dauðarokkhljómsveit sem heitir Suffacation. Og það er því nýjasti miðinn í safninu „Þeir spiluðu hérna í Köben á 300 manna stað í miklum svita og hita.“

En hverjir eru eftirminnilegustu tónleikar sem Óli hefur farið á? „Sennilega fyrsta skiptið sem ég sá The Smashing Pumpkins í Valby hallen í Kaupmannahöfn árið 2000 eða Stevie Wonder á Roskilde Festival 2014, það var magnað að sjá,“ segir Óli Rúnar sem á sér þann draum að sjá bæði Guns’N Roses og Sir Paul McCartney á tónleikum.

Fyrri greinÆgir nálgast öruggt sæti
Næsta greinLést í slysi á Rangárvöllum