Elsta konan til að klífa tindana sjö bætir Hvannadalshnjúk á afrekalistann

Að morgni 12. maí kom til landsins sex manna hópur frá Utah nánar tiltekið Salt Lake City, félagar í fjallaklúbbnum Wasatch Mountain Club. Það sem gerir þennan hóp athyglisverðan er að allir meðlimir eru yfir 60 ára og einn 72 ára.

Í hópnum voru Julie Kilgore, Jim Kucera, Steve Duncan, Lana Christiansen, Michael Hannan og Carol Masheter/Silver Fox.

Carol fór fyrir hópnum en hún er elsta kona sem klifið hefur tindana sjö (Seven Summits). Hún er einnig næst elsta kona sem hefur klifið Mount Everest en það gerði hún rúmlega 61 árs gömul. Megin tilgangur ferðarinnar til Íslands var að klífa hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk.

Carol kom til Íslands sumarið 2015 og fór þá í SuperTruck ferð með Mountain Excursion sem er lítið útivistarfyrirtæki í Vík í Mýrdal sem sérhæfir sig í að fara með einstaklinga og litla hópa í göngu og SuperTruck ferðir. Eigandi fyrirtækisins, Jóhann V. Hróbjartsson, og Carol fundu út að þau áttu sameiginlegt áhugamál sem er að klífa fjöll. Jóhann, eigandi og aðalfararstjóri Mountain Excursion, hefur leitt marga leiðangra á topp hæsta tinds Íslands og eftir stuttar samræður kom sú hugmynd upp að Mountain Excursion setti upp leiðangur fyrir lítinn hóp af sérvöldu liði bæði frá Utah og Íslandi.

Þann 14. maí síðastliðinn var svo ákveðinn stóri dagurinn. Hópurinn var mjög heppinn með veður, heiðskýrt og lítill vindur. Lagt var af stað um miðnætti og til að gera langa göngu stutta stóð allur hópurinn 16 manns á hæsta tindi Íslands Hvannadalshnjúk um kl 7:30 um morguninn sem telst góður tími á þessari ca. 25 km göngu og 2.000 metra hækkun.

Það var svo þreyttur en ánægður hópur sem kom aftur á bílastæðið við Sandfell um kl 13:00 eftir vel heppnaða göngu á Hvannadalshnjúk 2.110 m.y.s.

Carol hefur þá bætt við enn einum tindinum í safn sitt nú 69 ára gömul. Hún segist algerlega fallin fyrir bæði landi og þjóð er strax farin að hugsa um að koma að ári og klífa næsta tind, en hver þeirra verður fyrir valinu er enn óákveðið.