Ellefu umferðarslys í síðustu viku

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tvö slys á gangandi vegfarendum voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku, annað á Höfn en hitt á Selfossi. Í báðum tilfellum datt fólk í hálku og er grunur um beinbrot, að minnsta kosti í öðru tilfellinu.

Ellefu umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar og í þremur þeirra var um að ræða slys á fólki. Á mánudag varð árekstur tveggja jeppa á Biskupstungnabraut við Kerið. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar slasaðist alvarlega og fluttu sjúkraflutningamenn hann með aðstoð björgunarsveita um Suðurstrandaveg á sjúkrahús í Reykjavík. Aftakaveður gekk yfir landið á sama tíma og var ófært yfir Hellisheiðina og ekki veður til flugs. Ökumaður og farþegar í hinni bifreiðinni sluppu með minni meiðsli en þó brákuð og marin.

Þá slasaðist ökumaður jeppabifreiðar þegar bifreiðin fauk út af Gaulverjabæjarvegi á þriðjudag. Hann var fluttur á sjúkrahús en meiðslin reyndust ekki alvarleg.

Síðastliðinn sunnudag varð svo árekstur á hringveginum á Skeiðarársandi þar sem flutningabifreið var ekið aftan á jeppling. Ökumaður jepplingsins kenndi til eymsla eftir slysið og var fluttur á heilsugæslu til frekari skoðunar. Báðir bílarnir voru óökufærir eftir áreksturinn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinTap í jafnteflisleik
Næsta greinÁtján þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins