Ellefu sunnlenskir jólabjórar á markaðnum

Sveinn Sigurðsson og Þórey Richardt Úlfarsdóttir, í Smiðjunni í Vík í Mýrdal, bjóða meðal annars upp á Choc Ho Ho og Santa´s Blue Balls fyrir þessi jól. Ljósmynd/Smiðjan

Í dag er stór dagur hjá bjóráhugafólki en frá og með deginum í dag leyfir hið opinbera sölu á jólabjórum í Vínbúðunum. Alls eru í boði 82 jólabjórar og þar af koma ellefu frá sunnlenskum brugghúsum.

„Já, þetta er mikill hátíðisdagur hjá bjórunnendum. Ég vaknaði spenntur klukkan sex í morgun til þess að sjá í hvaða búðir bjórarnir okkar færu. Þetta er spennandi tími,“ sagði Sveinn Sigurðsson, einn eigenda, bruggari og uppvaskari hjá Smiðjunni brugghúsi í samtali við sunnlenska.is.

Smiðjan, sem er í Vík í Mýrdal, býður upp á þrjá jólabjóra á aðventunni; Choc Ho Ho og Santa´s Blue Balls sem voru einnig í boði í fyrra og síðan Ris a la Sour, sem er glænýr súrbjór. Nöfnin vekja svo sannarlega athygli.

„Við erum með bjórnafnanefnd í þessu og svo er verið að kasta á milli sín hugmyndum. Við erum að reyna að spila inn á eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt en stundum eru nöfnin líka búin til á einni mínútu, um leið og verið er að sækja um fyrir bjórinn í Vínbúðinni. Svo erum við með frábæran hönnuð, Bobby Breiðholt, sem skapar útlitið á vörunni og tekur hugmyndirnar á næsta stig,“ bætir Sveinn við.

Engin kútasala í kreppunni
Bjórarnir frá Smiðjunni seldust upp á fyrsta degi í Vínbúðinni í fyrra þannig að brugghúsið skilar af sér talsvert meira magni í verslanir í dag.

„Allur okkar bjór fer á 440 ml dósir og inn í Vínbúðirnar. Nú er kreppa og allir barir lokaðir þannig að kútasalan er engin,“ segir Sveinn og bætir við að vinnsluferli jólabjóranna sé talsvert langt.

„Það þarf að sækja um fyrir jólabjórana í Vínbúðinni í júlí, þannig að á vorin erum við að pæla í því hvernig bjóra við ætlum að brugga fyrir jólin. Það þarf að hugsa langt fram í tímann og þetta er erfitt umhverfi fyrir mann sem er með frestunaráráttu. Í fyrradag vorum við til dæmis að skila inn hvaða páskabjóra við ætlum að vera með á næsta ári,“ segir Sveinn léttur að lokum.

Ketilsýrður súrbjór með sunnlensku skyri
Sem fyrr segir er Smiðjan með þrjá jólabjóra í ár. Choc Ho Ho er milkstout með hnetusmjörs og súkkulaðibragði og ætti að henta vel með jólakonfektinu eða desertinum, Santa´s Blue Balls er bláberja og vanillu milkshake pale ale með helling af bláberjum og Ris a la Sour er súrbjór af stílnum Gose en hann er ketilsýrður með sunnlensku skyri, og inniheldur hann meðal annars kirsuber og smá af vanillukeim og ætti því að henta einstaklega vel með jólagrautnum og jafnvel út á hann.

Ölvisholt í Flóahreppi býður upp á fimm jólabjóra þetta árið. Það eru Jólabjór, sem er reyktur bock, Hel vetraröl, sem er porter, Heims um bjór, Jóla Jóra, sem er kryddaður stout og svo Tuttugasti og fjórði, sem er tunnulegið barley wine.

Þá kemur þríeykið Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða frá The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Leppur er milk stout, Skreppur er kveik IPA og Leiðindaskjóða er humlað rauðöl.

Jólabjórar Smiðjunnar. Ljósmynd/Aðsend
Jólabjórar Ölvisholts. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKláraði áskorunina þrátt fyrir að vera veik af COVID
Næsta greinRangárþing ytra endurnýjar samstarfssamning við Heklu