Ellefu milljóna króna halli á rekstrinum

Samkvæmt fjárhagsáætlun dvalarheimilisins Hjallatúns í Vík í Mýrdal fyrir síðasta ár var rúmlega ellefu milljóna króna halla á rekstrinum.

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur fundað með hjúkrunarforstjóranum og fékk þær skýringar að hallinn kom m.a. til vegna langtímaveikinda starfsmanns og aukinnar hjúkrunarþyngdar.

„Við lýstum yfir þungum áhyggjum af rekstrinum, það vantar bara mikið á að daggjöldin dugi fyrir rekstri a.m.k. á hjúkrunar- og dvalarheimilum af þeirri stærð sem rekin er í Vík,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

Hallinn árið á undan var um fjórtán milljónir króna. „Reyndar fengum við þá ánægjulegu frétt nú í vikunni að ráðuneytið hefði ákveðið að auka framlög til minni hjúkrunarheimila og af þeirri upphæð fáum við tæpar 4 milljónir svo vonandi verður reksturinn á svipuðum nótum 2015 og var 2013,“ bætir sveitarstjórinn við.