Elís hlaut Múrbrjótinn

Elís Kjartansson, rannsóknarlögreglumaður á Selfossi, var einn þeirra sem hlaut Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar 2015 í dag, á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.

Elís, sem er lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, hlýtur Múrbrjótinn fyrir innleiðingu nýrra aðferða við rannsókn ofbeldismála gegn fötluðu fólki.

Hann hefur í störfum sínum lagt mikið af mörkum til að stuðla að því að rannsókn brotamála þar sem fatlað fólk á hlut að máli, og sérstaklega mál sem varða kynferðsibrot gegn fötluðum konum, fari þannig fram að fatlað fólk fái notið þeirra mannréttinda að fá vernd réttarkerfisins og hafa virkan aðgang að því til jafns við aðra. Elís hefur í þessu skyni tekið saman verklagsreglur fyrir starfsfólk lögreglunnar sem rannsakar mál þar sem fatlað fólk, s.s. fólk með þroskahömlun, á hlut að máli.

Auk Elísar hlaut Aðalheiður Sigurðardóttir Múrbrjótinn fyrir verkefni sitt Ég er unik og Elín Sveinsdóttir fyrir framleiðslu þáttanna Með okkar augum.

Hefð er fyrir því hjá Þroskahjálp að afhenda Múrbrjóta á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks. Þeir eru veittir aðilum sem þykja hafa sýnt gott frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og þannig sýnt samfélagslega ábyrgð.

Þremenningarnir sem hlutu Múrbrjótinn í dag eiga það sameiginlegt að hafa hvert á sínu sviði með verkum sínum haft áhrif á viðhorf til fatlaðs fólks og opnað leiðir og tækifæri til virkrar þátttöku og viðurkenningar á jöfnum tækifærum og réttindum fyrir alla óháð fötlun.

Múrbrjótarnir eru smíðaðir á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.

Fyrri greinSkáldastund og jólasýning
Næsta greinÞórsarar öflugir á útivelli