Elín og Bjarni fengu menningarviðurkenningu Árborgar 2021

Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni Harðarson, handhafar menningarverðlauna Árborgar 2021. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hjónin Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni Harðarson á Sólbakka á Selfossi fengu í dag afhenta menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar 2021.

Elín og Bjarni reka Bókakaffið á Selfossi og Bókaútgáfuna Sæmund. Bókakaffið var stofnað árið 2006 og fagnaði því 15 ára afmæli í október síðastliðnum. Það hefur reynst mörgum sannkölluð vin við þjóðveginn þar sem finna má allar nýjustu bækurnar auk þess sem hægt er að grúska í ótrúlegum fjölda notaðra bóka. Auk þess rekur Bókakaffið vinsæla netverslun, með nýjar og notaðar bækur, og hefur vegur hennar vaxið hratt síðustu ár.

Bókaútgáfan Sæmundur gaf fyrst út bók árið 2001, þá undir merki Sunnlensku bókaútgáfunnar en merki forlagsins var breytt árið 2010. Útgefnum titlum Sæmundar hefur fjölga ár frá ári en útgáfan hefur lagt áherslu á fagurbókmenntir, fræðirit, barnabækur og margskonar afþreyingu, auk þess að gefa út nokkra hljóðdiska.

Það er menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar sem stendur fyrir verðlaunaafhendingunni og hefur gert það í áraraðir, en verðlaunaafhendingin féll niður árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins.

Elín og Bjarni og Anna Björk Eyvindsdóttir, verslunarstjóri, ásamt fulltrúum menningarnefndar Árborgar; þeim Guðbjörgu Jónsdóttur, Karolinu Zoch, Kjartani Björnssyni og Guðmundi Kr. Jónssyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Gaman að finna hvers maður er megnugur þegar maður fer út fyrir þægindaramman“
Næsta greinHrunamenn töpuðu gegn botnliðinu