Elín og Anna tóku við styrkjum

Sl. fimmtudag fóru fram úthlutanir úr Menningarsjóði Hlaðvarpans. Tveir Sunnlendingar tóku við styrkjum; Elín Gunnlaugsdóttir fyrir hönd Poulenc-hópsins og Rannveig Anna Jónsdóttir fyrir hönd Konubókastofu.

Elín tók á móti styrk fyrir hönd Poulenc-hópsins til að standa að tónleikum og danssýningu í Norræna húsinu og ber verkefnið heitið Kvennasóló en þar verða leikin af konum sóló (einleiksverk) eftir íslenskar konur og við hvert verk verður dansað sólóverk af konu og eru danshöfundarnir líka konur. Sýningin verðu unnin í samvinnu við Íslenska dansflokkinn, tónleikaröðinni 15:15 og dansbraut LHÍ. Sýningin verður 9. mars, í tilefni af 8. mars alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Rannveig Anna tók á móti styrk fyrir hönd Konubókastofu á Eyrarbakka fyrir verkefnið Íslenskar skáldkonur í ljóðum, tónlist og fræðum. Þar verða ljóðskáld kynnt, þær lesa upp úr verkum sínum, fræðimenn fjalla um skáldin og verk þeirra og tónlist verður flutt við ljóð kvenna. Dagskráin mun verða á haustmánuðum.

Fyrri greinÁsta vill leiða D-listann í Árborg
Næsta greinFSu áfram í 2. umferð