Elín Jónasdóttir látin

Eyfellingurinn Elín Jónasdóttir lést í gær á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar á Siglufirði. Hún var fimmti elsti Íslendingurinn, að verða 105 ára.

Elín var fædd 16. maí 1908 í Efri-Kvíhólma í Ásólfsskálasókn í Vestur-Eyjafjallahreppi. Foreldrar hennar voru Jónas Sveinsson (1875-1946), bóndi frá Rauðafelli og Guðfinna Árnadóttir (1874-1972), húsfreyja frá Mið-Mörk, og var Elín fjórða í röð níu barna þeirra.

Elín er í hópi elstu Rangæinga samkvæmt lauslegri athugun sunnlenska.is. Eldri urðu þær Helga Brynjólfsdóttir, frá Selalæk á Rangárvöllum og Jenný Guðmundsdóttir frá Bakka í Landeyjum, sem báðar urðu 106 ára.

Langlífi er í ætt Elínar en Guðfinna móðir hennar varð 98 ára og systur hennar náðu háum aldri, Guðný Bergrós varð 99 ára og Marta Sigríður varð 96 ára.

Fyrri greinSelfoss fékk ÍR í undanúrslitunum
Næsta greinÞetta er það sem ég stend fyrir