Elfa Dögg og Tómas opna nýjan veitingastað á Selfossi

Elfa og Tómas ásamt Ívari frá Festi. Ljósmynd/Aðsend

Elfa Dögg Þórðardóttir og Tómas Þóroddsson undirituðu í dag leigusamning við Festi ehf um húsnæðið að Austurvegi 1-5 sem áður hýsti veitingastaðinn Yellow.

Þau hyggjast opna veitingastaðinn Vor í byrjun júlí þar sem boðið verður upp á hollustu skyndibita, meðal annars ferska safa, shake, samlokur, salat og fleiri ljúffenga rétti.

Elfa Dögg á og rekur bæði Frost og funa og Skyrgerðina í Hveragerði og Tómas á og rekur Kaffi krús á Selfossi.

Tómas sagðist aðspurður hlakka mikið til að vinna með Elfu Dögg, en saman eru þau með áratuga reynslu í veitingageiranum. Undirbúningur að opnunni gengur vel og sagði Elfa Dögg að nú væri verið að leita að starfsfólki. Sandra Jónsdóttir hefur verið ráðin sem verslunarstjóri.