Elfa Dögg nýr formaður SASS

Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi D-listans í Árborg, var í morgun kjörin nýr formaður Sambands sunnlenskra sveitarfélaga en þing sambandsins stendur nú yfir á Selfossi.

„Þetta embætti felur í sér mikla ábyrgð og verkefni formanns snúast um að standa vörð um sérhagsmuni einstakra sveitarfélaga og einnig að styðja við bakið á sveitarfélögunum í heild sinni,“ sagði Elfa Dögg í samtali við sunnlenska.is.

Elfa Dögg sóttist eftir embættinu og segir hún að mörg stór mál séu framundan sem varða hagsmuni sveitarfélaganna. „Stærsta málið í dag er auðvitað yfirfærsla á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Samgöngumál eru líka ofarlega á baugi hjá Sunnlendingum auk þess sem ennþá er verið að vinna úr málum tengdum eldgosinu í Eyjafjallajökli.“

Elfa tekur við af Sveini Pálssyni, fyrrverandi sveitarstjóra í Mýrdalshreppi, sem nú er sveitarstjóri Dalabyggðar. Aðrir í nýrri stjórn SASS eru Aðalsteinn Sveinsson úr Flóahreppi, Reynir Arnarson á Höfn, Elliði Vignisson í Vestmannaeyjum, Elín Einarsdóttir í Mýrdalshreppi, Sigríður Lára Ásbergsdóttir í Ölfusi og Guðfinna Þorvaldsdóttir, Rangárþingi ytra.

Í dag fara fram aðalfundir SASS, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands en síðan taka við nefndastörf. Þinginu lýkur síðdegis á morgun.

Fyrri greinEineltisátak hefst í Árborg
Næsta greinGoslokum ekki lýst yfir