Elfa Dögg hættir í bæjarráði og veitustjórn

Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, mun hætta í bæjarráði og í framkvæmda- og veitustjórn Sveitarfélagsins Árborgar og nýir fulltrúar verða skipaðir á bæjarstjórnarfundi í dag.

Elfa staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í dag. „Við hjónin vorum að kaupa gistiheimilið Frost og funa í Hveragerði ég ætla að hella mér út í ferðaþjónustuna. Ég hef ekki verið í vinnu samhliða bæjarmálunum það sem af er kjörtímabilinu og mun því minnka við mig í pólitíkinni,“ segir Elfa.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is mun Gunnar Egilsson taka við formennsku af Elfu í framkvæmda- og veitustjórn en nýr bæjarráðsfulltrúi verður skipaður á bæjarstjórnarfundi í dag. Elfa Dögg hefur verið varaformaður bæjarráðs. Þar sitja Ari Björn Thorarensen og Sandra Dís Hafþórsdóttir nú sem varamenn fyrir D-listann.

Fyrri greinStórskemmtileg sýning í Þorlákshöfn
Næsta greinEinhliða yfirlýsingu um eignarhald á Dyrhólaey mótmælt