Elfa Dögg áfram með meirihlutanum

Ekkert verður af samstarfi D- og B-lista í bæjarstjórn Árborgar sem sunnlenska.is greindi frá í hádeginu. Elfa Dögg Þórðardóttir mun starfa áfram með flokkssystkinum sínum í D-listanum.

Sunnlenska.is hefur þetta eftir áræðanlegum heimildum.

Eftir stormasama viku hjá meirihlutanum þar sem D-listinn fundaði með B-listanum og Elfa Dögg fundaði með minnihlutanum mun meirihluti D-listans starfa óbreyttur.

Sjálfstæðismenn hafa fimm af níu bæjarstjórnarstólum en meirihluti þeirra var í óvissu í vikunni eftir að fjórir bæjarfulltrúar D-listans lýstu yfir vantrausti á Elfu Dögg á mánudagskvöld vegna skólaskrifstofumálsins. Elfa Dögg er mótfallin úrsögn Árborgar úr Skólaskrifstofu Suðurlands, en D-listinn vill að Árborg segi sig úr skrifstofunni.

Formlegar viðræður D- og B-lista hófust í gær en samkvæmt heimildum sunnlenska.is verður ekkert af því samstarfi.