Eldur kraumar í kurlfjalli á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjölmennt lið slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu hefur frá því klukkan tvö í dag reynt að ráða niðurlögum elds sem kraumar í stóru fjalli af trjákurli á athafnasvæði Íslenska gámafélagsins við Hrísmýri á Selfossi.

Stórvirkar vinnuvélar eru notaðar við verkið en Lárus Kristinn Guðmundsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri BÁ, segir í samtali við sunnlenska.is að slökkvistarf muni líklega standa fram á morgundaginn.

„Það er eldur hér og þar um hrúguna. Við erum að moka úr henni og bleyta í hverri skóflu, það má segja að við séum að tilfæra hauginn. Það eru tuttugu manns að vinna við þetta núna og við erum að fara að hafa vaktaskipti fyrir nóttina,“ segir Lárus og bætir við að gríðarlegt magn af vatni þurfi til verksins.

„Við erum að fara að sækja vatn úr Ölfusá núna. Við erum með þrjá tankbíla sem flytja okkru stöðugt vatn sem við sækjum úr brunahönum í nágrenninu. Það er mikill búnaður sem er í notkun hérna, dælur og annað.“

Íbúar á Selfossi eru beðnir um að fara sparlega með kalda vatnið á meðan á slökkvistarfinu stendur.

Líklegt er talið að um sjálfsíkveikju sé að ræða þar sem um er að ræða mikið magn af allskonar timbri sem kurlað hefur verið niður og síðan hitnar í kjarna hrúgunnar.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFjórir Selfyssingar á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar
Næsta greinÍbúar fari sparlega með kalda vatnið