Eldur í sumarhúsi í Tungufellsdal

Eldur kom upp í sumarhúsi í Tungufellsdal, austan við Tungufell í Hrunamannahreppi, um klukkan hálf fimm í gær. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á Flúðum slökktu eldinn á skömmum tíma.

Slökkviliðseiningar frá Reykholti og Laugarvatni voru einnig kallaðar út þar sem mikið kjarrlendi er á svæðinu og óttuðust menn því hættuna á umtalsverðum gróðureldum í kjölfar húsbrunans ef eldurinn næði að læsa sér í gróðurinn.

Slökkviliðsmenn frá Flúðum voru fyrstir á staðinn og slökktu reykkafarar þeirra eldinn á skömmum tíma og náðu þannig að lágmarka það tjón sem þegar var orðið.

Mikið hafði rignt á svæðinu undanfarin sólarhring sem dró verulega úr hættu á gróðureldum.