Eldur í skíðaskálanum í Hveradölum

Slökkviliðsmenn við störf í skíðaskálanum í nótt. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði var kallað að Skíðaskálanum í Hveradölum klukkan 00:16 í nótt þegar tilkynning barst um eld í húsinu.

„Það er stór og mikill arinn í húsinu, hlaðinn eða steyptur, og einhvern veginn þá komst eldur í klæðninguna á bakvið hann. Við sprautuðum vatni á bakvið arininn og rifum síðan botninn og bakið úr honum. Þetta var svolítið föndur en gekk bara vel,“ segir Lárus en tíu slökkviliðsmenn voru kallaðir út, frá Hveragerði auk stigabíl frá stöðinni á Selfossi.

Jólahlaðborð var í Skíðaskálanum í gærkvöldi og fólk var enn í húsinu þegar eldsins varð vart. Engum varð meint af en Lárus segir það hafa verið til happs að fólk hafi verið í húsinu.

„Ef húsið hefði verið mannlaust og eldurinn fengið að malla eitthvað meira þá hefði þetta geta orðið miklu meira. En þetta bjargaðist og fór allt vel og við fengum randalínur og malt og appelsín að slökkvistarfi loknu,“ sagði Lárus að lokum en slökkvistarfi lauk á þriðja tímanum í nótt.

Fyrri greinTíu marka tap ungmennaliðsins
Næsta greinPennar á lofti í Stekkjaskóla