Eldur í sinu við Sýrlæk

Eldur kviknaði í sinu við Efri-Sýrlæk í Flóahreppi eftir hádegi í dag. Meðal annars brann gróður allt í kringum sumarhús sem stendur á jörðinni en eldurinn komst ekki í húsið og varð heimilisfólkinu ekki meint af.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi kviknaði eldurinn út frá rusli sem verið var að brenna.

Um fjórir hektarar af grónu landi brunnu og tók slökkvistarfið hátt í tvær klukkustundir. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Hveragerði voru kallaðir út en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins eftir að dráttarvél og haugsuga frá Ferjunesi mættu á vettvang og dældu vatni á brunasvæðið.

Fyrri greinAnnríki hjá björgunarsveitum í gær
Næsta greinÆgir tapaði á Akranesi