Eldur í rjóðri við FSu

Ljósmynd/BÁ

Brunavörnum Árnessýslu barst tilkynning um eld í rjóðri við Fjölbrautaskóla Suðurlands um miðnætti í nótt. Dælubíll og slökkviliðsmenn frá Selfosseiningu slökkviliðsins voru sendir á vettvang til þess að ráða niðurlögum eldsins.

Vegfarandi varð var við eld og reyk og hringdi eftir slökkviliði en þarna virðast einhverjir hafa ákveðið að kveikja sér varðeld í þurrum gróðrinum. Áður en slökkvilið kom á vettvang voru vegfarandi og lögregla búin að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn slökktu í glæðum og bleyttu vettvang vel til þess að koma í veg fyrir að eldurinn tæki sig upp aftur í þurrum gróðrinum.

Talsverð hætta hefur veið á gróðureldum í sumar vegna mikilla þurrka en loksins fór að rigna síðla nætur á Suðurlandi.

Í frétt frá Brunavörnum Árnessýslu segir að þó nú sé byrjað að rigna þurfi talsvert mikla vætu til þess að rakinn nái niður fyrir yfirborð jarðvegsins að einhverju marki og minnki þar með hættuna á útbreiðslu gróðurelda.

Fyrri greinLögreglan lýsir eftir Renars
Næsta greinVegurinn að Sauðleysuvatni lokaður