Eldur í reykháf á Kaffi Krús

Veitingastaðurinn Kaffi Krús á Selfossi var rýmdur á tíunda tímanum í kvöld eftir að eldur kviknaði í reykháfi utan á austurgafli hússins. Snarræði gesta kom í veg fyrir stórtjón.

Starfsfólk varð eldsins vart eftir að hafa fundið brunalykt á efri hæð hússins. Eldurinn logaði upp undir þakskeggi og er ljóst að illa hefði farið ef eldurinn hefði náð að læsa sig í þakið. Húsið er gamalt timburhús, byggt árið 1931.

Snarráðir gestir fóru út á svalir við reykháfinn og slökktu eldinn með slökkvitækjum.

Staðurinn var þéttsetinn að vanda og að sögn viðbragðsaðila gekk vel að rýma hann og engum varð meint af.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu mættu á vettvang og kældu vegginn auk þess sem þeir rifu frá klæðningu til þess að kanna hvort eldur eða glóð leyndist þar á bakvið.

Ekkert tjón varð inni í húsinu en einhverjar skemmdir urðu á reykháfnum og þakkantinum.