Eldur í rafmagnsstaur – Straumlaust allt austur í Mýrdal

Eldur kom upp í rafmagnsstaur í Rimakotslínu fyrir neðan Voðmúlastaði í Austur-Landeyjum laust eftir klukkan fjögur í dag og hefur verið rafmagnslaust undir Eyjafjöllunum og allt austur í Mýrdal síðan þá.

Mikið eldingaveður hefur verið á Suðurlandi í dag en þrátt fyrir það er talið að eldurinn hafi kviknað vegna vírs sem hafði losnað, en ekki vegna eldingar.

Varaafl var ræst í Vestmannaeyjum fljótlega eftir að línan leysti út. Einnig var keyrð upp vararafstöð sem veitir Víkurþorpi rafmagn.

„Þetta var ekkert verk fyrir okkur, við gátum ekki slökkt fyrr en straumurinn hafði verið tekinn af línunni og þá var hann nánast slokknaður af sjálfu sér,“ sagði Böðvar Bjarnason, varðstjóri hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu, í samtali við sunnlenska.is. „Þetta er mun meiri vinna fyrir vinnuflokkinn sem var ræstur út til að gera við línuna,“ sagði Böðvar.

Viðgerð á línunni stendur yfir en hún hófst um klukkan hálf átta í kvöld. Eftir samráð við veðurfræðing þótti ekki óhætt að hefja vinnu fyrr vegna hættu á eldingum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er vonast til þess að viðgerð ljúki fyrir miðnætti.

Fyrri grein„Fjallkóngar“ í bíó á Selfossi og Klaustri
Næsta greinTólf starfsmenn með samtals 302 ára starfsreynslu kvaddir