Eldur í potti

Betur fór en á horfðist þegar eldur kviknaði í potti á eldavél í parhúsi í Birkigrund á Selfossi eftir hádegi í dag.

Húsráðendur höfðu brugðið sér af bæ en nágranni varð var við reyk og hringdi í Neyðarlínuna.

Slökkviliðið á Selfossi var fljótt á vettvang en reykkafarar fóru inn í húsið og báru út logandi pottinn.

Tjón varð því lítið innanstokks en nokkur reykur var í íbúðinni og sáu slökkviliðsmenn um að reykræsta.