Eldur í mælaspenni í Írafossvirkjun á jólanótt

Slökkviliðsmenn á vettvangi í nótt. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Brunavarnir Árnessýslu fengu boð um eld í tengivirki í Írafossvirkjun kl 3:15 á jólanótt. Eldurinn kom upp í mælaspenni og var töluverður eldur þegar starfmenn komu á staðinn.

Allir rofar í tengivirkinu á Írafossi slógu út kl. 2:59 en upptök eldsins eru ekki ljós.

Stafsmenn Landsvirkjunar jarðtengdu spenninn áður en slökkvistarf gat hafist til þess að tryggja öryggi slökkviliðsmanna. Nokkuð magn af olíu er í spennum sem þessum og því mikil hætta til staðar þegar eldur kviknar.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn frá Selfossi og Laugarvatni voru boðaðir út, auk þess sem aðgerðarstjórn var virkjuð í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Slökkvistarfi lauk á fimmta tímanum í morgun en kl. 4:24 höfðu slökkviliðsmenn yfirgefið vettvanginn.

Allar vélar á Írafossi voru komnar í gagnið kl. 5:41 en Ljósfosslína 1 er enn úti eftir eldsvoðann. Spennivirkin eru eign Landsnets.

Nokkuð magn af olíu er í spennum sem þessum og því mikil hætta til staðar þegar eldur kviknar. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinGleðileg jól!
Næsta greinNýr vefur með loftgæðamælingum