Eldur í gaskút

Eldur gaus upp í gaskút undir gasgrilli við hús á Eyravegi á Selfossi rétt fyrir klukkan 19 í kvöld.

Hálftíma áður hafði slökkviliðið á Selfossi verið kallað út til að sinna sinubruna í Grímsnesi. Það var því lán í óláni að aðrir slökkviliðsmenn frá Selfossi voru nýkomnir á slökkvistöðina eftir öskuhreinsun í Mýrdalnum í dag. Þeir brugðust skjótt við og voru komnir af stað í útkallið um hálfri mínútu eftir að það barst.

Slökkvistarf tók skamma stund og lítið tjón varð af en lögregla telur líklegt er að kúturinn hafi verið illa tengdur og logandi gas hafi lekið með slöngunni niður í kútinn.