Eldur í gamalli kennslustofu

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kallað út klukkan 8:40 í morgun eftir að tilkynning barst um eld í stórum skúr við iðnaðargötuna Gagnheiði.

Slökkviliðsmenn voru snöggir á vettvang enda mikill eldsmatur í kringum skúrinn, timbur og trjáróður auk þess sem plaströralager SET er á næstu lóð.

Töluverður eldur var í húsinu þegar slökkviliðið mætti á vettvang en þeir náðu fljótt tökum á honum. Um er að ræða gamla kennslustofu sem hefur verið í geymslu á lóðinni um nokkurt skeið.

Eldsupptök eru ekki ljós en grunur leikur á að um íkveikju sé að ræða.

Þetta var fyrsta útkall Brunavarna Árnessýslu á árinu en síðasta útkall ársins 2013 barst kl. 23:50 á gamlárskvöld þegar slökkva þurfti í varðeldi við heimahús.