Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir út á tíunda tímanum í morgun, ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum eftir að eldur kom upp í geymslu í kjallara í fjölbýlishúsi við Fossveg á Selfossi.
Samkvæmt lýsingum vegfarenda lagði mikinn reyk frá húsinu. Slökkvistarf gekk vel fyrir sig en talsverða stund tók að reykræsta kjallarann auk þess sem reykur barst í íbúðir á efri hæðum og þar þurfti einnig að reykræsta. Engum íbúa varð meint af en talsverðar skemmdir eru í kjallaranum.
„Við vorum að ljúka vinnu hér á vettvangi og erum búnir að afhenda lögreglu hann til rannsóknar,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri BÁ, í samtali við sunnlenska.is nú rétt fyrir klukkan 11.

