Eldur í bíl við Selfoss

Vegfarandi slökkti eld sem kom upp í bíl á Suðurlandsvegi austan við Selfoss eftir miðnætti í nótt.

Jeppa með hestakerru í afturdragi var ekið vestur Suðurlandsveg þegar eldur blossaði upp undir vélarhlíf bílsins, rúma tvo kílómetra austan við Selfoss. Ökumaðurinn stöðvaði snarlega og forðaði sér út ásamt farþegum.

Aðvífandi vegfarandi slökkti eldinn áður en slökkviliðið á Selfossi kom á vettvang. Ekki er vitað um upptök eldsins en bíllinn er lítið skemmdur.

Tvö hross voru í hestakerrunni og féll annað þeirra þegar bíllinn stöðvaðist og skorðaðist í kerrunni. Sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn aðstoðuðu við að reisa hrossið á fætur.

Fyrri greinBrotnaði illa á bifhjóli
Næsta greinSkemmdarverk á Kiðjabergi