Eldur í bíl á Selfossi

Engum varð meint af þegar eldur kom upp í fólksbifreið við Olís á Selfossi um kl. 0:30 í nótt.

Bílnum var lagt á bílastæði við Olís og hafði verið kyrrstæður í rúma mínútu þegar ökumaðurinn varð var við reyk. Skömmu síðar blossaði upp eldur svo að ökumaður og farþegar forðuðu sér og varð ekki meint af.

Lögreglumenn sem voru fyrstir á vettvang beittu handslökkvitækjum á eldinn en það dugði ekki til. Töluverður eldur var undir vélarhlíf bílsins þegar slökkviliðið kom á vettvang en slökkvistarf gekk hratt fyrir sig. Bifreiðin er töluvert skemmd.