Eldur kom upp í pallbíl á Laugarvatnsvegi, skammt frá Laugarvatni, um klukkan 15 í dag. Ökumaðurinn slapp ómeiddur en bíllinn er ónýtur.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Laugarvatni og Selfossi voru kallaðir til og slökkvistarf gekk vel.
„Hann var á akstri þegar ökumaðurinn varð var við eldinn. Bíllinn er ónýtur enda erfitt að eiga við það þegar kviknar svona í bílum á annað borð. Vegfarendur reyndu að halda eldinum í skefjum með slökkvitækjum til að byrja með en það dugði ekki til,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

