Eldur í Arnari

Eldur kom upp í dragnótabátnum Arnari ÁR 55 þar sem hann lá við bryggju í Þorlákshöfn í morgun. Báturinn var mannlaus en tilkynnt var um eldinn kl. 8:21 í morgun.

Gríðarlegan reyk lagði frá skipinu þegar lögregla og slökkvilið komu á vettvang. Tjónið varð þó ekki eins mikið og óttast var í fyrstu þar sem lítill eldsmatur var þar sem eldurinn kom upp og gekk slökkvistarf vel fyrir sig.

Þó er ljóst að Arnar verður frá veiðum í einhvern tíma á meðan gert er við skemmdirnar en báturinn hefur verið á makrílveiðum.

Lögreglan á Selfossi rannsakar upptök eldsins.