Eldur kom upp á veitingastað við Unubakka í Þorlákshöfn á þriðja tímanum í dag og var mikið viðbragð vegna þess hjá Brunavörnum Árnessýslu.
„Það var talsvert mikill reykur þarna en virðist hafa verið lítill eldur. Það er búið að slökkva hann og við erum að hefjast handa við að reykræsta húsið,“ sagði Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
Slökkviliðsmenn frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi voru kallaðir á vettvang.
Halldór segir ekki ljóst með skemmdir á húsinu en lögreglan á Suðurlandi mun rannsaka vettvanginn og upptök eldsins þegar slökkviliðsmenn hafa lokið vinnu sinni.

