Eldri borgarar tóku fyrstu skóflustungu að næsta áfanga miðbæjarins

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi tók fyrstu skóflustunguna að næsta byggingarreit miðbæjarins. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi tók í dag fyrstu skóflustunguna að fimm þúsund fermetra uppbyggingu við miðbæinn á Selfossi.

Um er að ræða sex ný hús við Miðstræti, nýja götu sunnan við núverandi miðbæ, sem þverar Brúarstræti og liggur frá austri til vesturs. Í húsunum verða 27 íbúðir á efri hæðum og verslunar- og þjónusturými á jarðhæð, auk bílakjallara. Áætluð verklok eru um mitt ár 2027.

Stjórn FebSel mundar skóflurnar (f.v) Ólafur Sigurðsson, Ólafía Ingólfsdóttir, Elín Jónsdóttir, Magnús J. Magnússon, Valdimar Bragason og Ólafur Bachmann. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum afar spennt fyrir þessum áfanga enda er hann fyrsta skrefið í frekari uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi. Nýi miðbærinn hefur sannað gildi sitt með því að efla mannlíf og menningarstarf í bænum og skapað ný störf. Þetta gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um áframhaldandi uppbyggingu og þau tækifæri sem í henni felast,“ segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri fasteigna- og þróunarfélagsins Landsbyggðar.

Húsin í þessum nýja áfanga miðbæjarins eru öll ættuð úr miðbæ Reykjavíkur. Húsin voru öll byggð um aldamótin 1900 og mörg þeirra brunnu til kaldra kola í brunanum mikla árið 1915.

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, segir áframhaldandi uppbyggingu í miðbænum mikið gleðiefni fyrir íbúa. „Miðbærinn á Selfossi hefur á örfáum árum orðið hjarta samfélagsins okkar – staður þar sem fólk kemur saman, sækir þjónustu og nýtur lífsins. Áframhaldandi uppbygging er mikið gleðiefni fyrir íbúa, enda mikilvægt skref í þróun sveitarfélagsins og mun styrkja samfélagið til framtíðar,“ segir Bragi.

Húsin sem verða endurbyggð við Miðstræti eru:

● Austurstræti 7
Tvílyft hús sem var reist snemma á 20. öldinni og var í eigu Gunnars Gunnarssonar verslunarmanns. Það brann til kaldra kola í miðbæjarbrunanum mikla árið 1915.

● Austurstræti 9
Þriggja hæða timburhús sem reis við hlið Landsbankans. Verslunin Edinborg var starfrækt þar um skeið. Húsið brann í miðbæjarbrunanum 1915.

Austurstræti 14, Syndikatið svokallað sem reist var af Einari Benediktssyni. Syndikatið brann í brunanum mikla í apríl 1915.

● Syndikatið
Reist á mótum Austurstrætis, Pósthússtrætis og Austurvallar rétt eftir 1900. Vöruhús á þremur hæðum, fyrsta stórverslun landsins þar sem Einar Benediktsson skáld hafði tögl og haldir. Húsið brann 1915.

Gamli Ingólfshvoll á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis.

● Ingólfshvoll
Verslunar-, skrifstofu- og íbúðarhús reist 1904, á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Húsið skemmdist mikið í brunanum 1915 en var endurreist. Margs konar starfsemi var í húsinu til ársins 1969 en þá var það rifið.

● Bergstaðarstræti 14
Timburhús sem var reist árið 1907 en brann rúmum áratug síðar.

● Völundur
Trésmiðja sem var reist árið 1904 af Sveini M. Sveinssyni á horni Klapparstígs og Skúlagötu. Þar hófst vélvæðing í íslenskum timburiðnaði. Húsið var rifið skömmu fyrir 1990.

Tölvumynd af Syndikatinu og Ingólfshvoli í miðbæ Selfoss, séð frá vestri. Mynd/Landsbyggð
Tölvumynd af Miðstræti, séð frá austri. Mynd/Landsbyggð
Tölvugerð yfirlitsmynd af miðbæ Selfoss. Mynd/Landsbyggð
Fyrri greinGuðjón Ragnar skipaður skólameistari FAS
Næsta greinKrónan opnar verslun á Höfn í Hornafirði