Eldri borgarar í Árborg fá hringingu frá símavini

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Símahringiverkefni hefur verið í gangi í Sveitarfélaginu Árborg síðustu vikur þar sem hringt hefur verið í stóran hluta íbúa 80 ára og eldri til að spjalla og kanna líðan þeirra og hefur verkefnið gengið afar vel.

Verkefnið var unnið að frumkvæði viðbragðsstjórnar Árborgar, sem hélt samráðsfund meðal annars með formanni félags eldri borgara og fulltrúa Rauða krossins. Félag eldri borgara hafði þá hringt í alla sína félagsmenn og Rauði krossinn hefur sömuleiðis sinnt símaþjónustu við fólk á öllum aldri.

Eftir samráðsfundinn var fulltrúa í samráðs­hópi áfallamála, og sviðsstjóra, falið að vinna málið áfram. Símaviðtalsrammi var unninn og er þar til að mynda spurt um aðstæður hvers og eins, vakin athygli á síma Rauða krossins 1717 og óskað eftir ábendingum um úrbætur á þjónustu.

Umsjónarmenn félags­miðstöðvar tóku að sér að verkefnastjórn og nú hefur verið hringt í stóran hluta íbúa 80 ára og eldri og hefur verkefnið gengið afar vel, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Árborgar.

Starfsfólk félagsmiðstöðarinnar Zelsíuz og ung­menna­­húss, dagdvalanna Árbliks og Vinaminnis sem og ráðgjafar félagsþjónustu hafa að undanförnu verið í hlutverki símavina.

Fyrri greinÁtta sækja um stöðu skólastjóra
Næsta greinUnglingalandsmótið á Selfossi enn á dagskrá