„Eldraunin“ vinsælasta bókin á Bókasafni Árborgar

Vinsælustu bækurnar í Bókasafni Árborgar, Eldraunin er á toppnum og titlunum er raðað í réttri röð þar fyrir neðan. Ljósmynd/Bókasafn Árborgar

Bókasafn Árborgar birti í vikunni lista yfir af tíu vinsælustu útlánsbækur ársins 2019.

Vinsælasta bókin er Eldraunin eftir Jørn Lier Horst, Ungfrú Ísland eftir Auði Övu er í öðru sæti og Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttir er í því þriðja.

Þess má geta að Arnaldur Indriðason var í 11. sæti með bókina Stúlkan hjá brúnni.

„Fólk er duglegt að koma og fá bækur hjá okkur – konur eru þar í meirihluta – og ég held það hafi nokkurn veginn haldist svipað hjá okkur milli ára. Kannski er erfiðara að meta þetta út af breytingunum sem urðu hjá okkur á safninu í haust,“ segir Rakel Sif Ragnarsdóttir, bókavörður hjá Bókasafni Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Eins og flestum er kunnugt þá lokaði bókasafnið 22. ágúst síðastliðinn vegna breytinga og átti lokunin að vara í þrjár vikur. Framkvæmdir drógust þó á langinn og opnaði bókasafnið ekki aftur fyrr en 26. október, eftir langþráða bið.

Að sögn Rakelar er Bókasafn Árborgar með útlánahæstu bókasöfnum landsins. „Við erum alltaf að reyna að gera betur en við erum búnar að vera að skiptast á við Amtbókasafnið á Akureyri um fyrsta og annað sætið í útlánum síðustu fjögur ár,“ segir Rakel að lokum og þakkar lánþegum bókasafnsins fyrir nýliðið ár og hlakkar til að taka á móti nýju og spennandi lestrarári.

Fyrri greinGleðilegt nýtt ár!
Næsta grein„Ætlum að lækka verðið – og afgreiðsluborðið“