Eldhestar er bær mánaðarins í febrúar

Eldhestar að Völlum í Ölfusi er sveitahótel og hestaleiga staðsett í friðsælu umhverfi stutt frá Hveragerði. Fyrirtækið er bær mánaðarins innan vébanda Ferðaþjónustu bænda.

Samkvæmt viðskiptavinum og starfsfólki Ferðaþjónustu bænda er aðstaðan og þjónustan hjá Eldhestum til fyrirmyndar. Starfsfólkið leggur mikinn metnað í að taka hlýlega á móti gestum og kynna íslenska hestinn sem best fyrir þeim. Þá er einnig vel hugað að umhverfis – og gæðamálum hjá fyrirtækinu.

Hróðmar Bjarnason, einn eigenda Eldhesta, segir frá hugmyndinni á bak við fyrirtækið og hvernig reksturinn hefur þróast: „Hugmyndin kviknaði þegar stofnendur fyrirtækisins lágu í heita læknum í Reykjadal í ágústmánuði árið 1986. Markmiðið var að gefa erlendum jafnt sem innlendum ferðamönnum tækifæri á að upplifa landið og margbreytileika íslenska hestsins eins og Íslendingar hafa sjálfir gert í rúmlega þúsund ár.

Í upphafi buðum við styttri hestaferðir inn á Hengilssvæðið og í nágrenni Hveragerðis. Á síðustu 26 árum hefur margt breyst. Í dag bjóðum við stærsta úrval hestaferða á landinu eða 35 ferðir með reyndum leiðsögumönnum, vítt og breitt um landið, allt árið um kring fyrir allan aldur og öll getustig, frá einni klukkustund upp í vikulangar ferðir.“

Dagsferðin inn í Reykjadal, þar sem hugmyndin að stofnun Eldhesta kviknaði, er einmitt vinsælasta ferð fyrirtækisins frá upphafi. Hróðmar bætir við: „Það er skemmtilegt að segja frá því að í einni slíkri ferð fór hópur danskra og sænskra gesta í lækinn á meðan fararstjórinn þurfti að halda í alla tíu hestana um 150 m frá baðstaðnum til að hlífa viðkvæmum gróðri. Fararstjóranum láðist að segja gestunum frá því að þau gætu legið í ca. 30 mínútur í læknum. Þegar ein klukkustund var liðin fór fararstjórinn að ókyrrast en hann náði ekki sambandi við gestina og mátti sig hvergi hræra. Svo fór að gestirnir lágu í læknum í tvær og hálfa klukkustund, svo mikið nutu þeir þess. Sjaldan hefur fararstjóri upplifað ánægðari gesti en einmitt í þessari ferð!“

Eldhestar er með virka umhverfisstefnu og hótelið var fyrsti gististaðurinn á Íslandi til að fá við­ur­kenn­ingu nor­ræna umhverf­is­merk­is­ins Svans­ins. Eldhestar fengu einnig umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2011 og hestaleigan Eldhestar hlaut gæðavottun Vakans árið 2012. Hróðmar útskýrir mikilvægi þessara áherslna: „Þar sem starfsemi okkar snýst um það að sýna fólki einstæðar óbyggðir landsins skiptir miklu máli fyrir framtíðina að halda landinu hreinu. Að mínu mati er það skylda fyrirtækja í þessari grein að leggja sitt af mörkum til að viðhalda náttúrunni hreinni og óspilltri. Umhverfisstefna okkar byggist á því að halda neikvæðum umhverfisáhrifum í lágmarki, m.a. með því að fylgja merktum reiðleiðum, hafa nægjanlega fjölda fararstjóra með í ferðum sem og að taka upp umhverfisvæna starfshætti í allri starfsemi Eldhesta.“

Umhverfisáherslur voru einmitt í forgrunni í byggingu hótelsins á sínum tíma en öll aðstaða þar er til fyrirmyndar. Herbergin eru 26 að tölu, rúmgóð og vel búin, gestir hafa einnig aðgang að heitum pottum og verönd með fallegu útsýni og skemmtilegt hestaþema er áberandi í skreytingum. Fjölbreyttar veitingar eru í boði í björtum matsal sem rúmar allt að 80 manns, hægt er að slaka á í koníaksstofu með arni og góð aðstaða er til ráðstefnuhalds á staðnum.

http://www.sveit.is

Fyrri greinGuðjón lætur af störfum
Næsta greinFrábær fyrri hálfleikur dugði ekki til