Eldgosinu lokið

Gosinu í Grímsvötnum virðist vera lokið. Engin gosvirkni hefur verið þar síðan á laugardagsmorgun, að sögn Veðurstofunnar.

Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir við AFP fréttastofauna að allt virðist benda til þess að gosinu hafi lokið. Enginn gosórói hafi sést á mælum stofnunarinnar frá því á laugardagsmorgun klukkan 7.

Gosið hófst laust fyrir klukkan 19. laugardaginn 21. maí. Eftir gríðarmikið öskugos fyrstu tvo sólarhringana dró hratt úr gosinu og á miðvikudag var öskugosinu að mestu lokið.

Almannavarnastigi aflétt
Í ljósi þess að vísindamenn telja að eldgosið í Grímsvötnum sé nú lokið, hefur ríkislögreglustjórinn í samráði við lögreglustjórana á Eskifirði og á Hvolsvelli ákveðið að aflétta almannavarnastigum vegna eldgossins.

Framundan er mikil vinna við hreinsun og uppbyggingu á því svæði, sem verst varð úti í öskufallinu. Miðstöð þeirrar vinnu verður í Þjónustumiðstöð almannavarna.

Þjónustumiðstöðin í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri verður opin frá klukkan 10:00 – 13:00. Meginverkefni hennar er að sinna eftirmálum eldgossins í Grímsvötnum, sem snúa að íbúum, sveitarfélögum og uppbyggingarstarfi.

Hægt er að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í síma 847 5715 og með tölvupósti í netfangið adstod.klaustur@gmail.com

Hægt að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í ofangreindu símanúmeri utan viðverutíma

Fyrri greinDíselolíu stolið við Seyðishóla
Næsta greinTorfærubílar fyrir túrista