„Ekki vilji fyrir samtali um að ég myndi vera áfram“

Fjóla ávarpar bæjarstjórnarfundinn í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti ráðningarsamning Braga Bjarnasonar, nýs bæjarstjóra sveitarfélagsins, á fundi sínum í dag. Fjóla St. Kristinsdóttir, fyrrum bæjarstjóri, hefur sagt skilið við meirihluta D-listans en mun sitja áfram í bæjarstjórn.

Eins og sunnlenska.is greindi frá síðastliðinn miðvikudag hafa D-listinn og Á-listinn myndað nýjan meirihluta í Árborg.

Ekki faglegt að gera breytingar á þessum tímapunkti
Fjóla hefur ekki viljað tjá sig um málið fram að þessu en í bókun á bæjarstjórnarfundinum í dag sagði hún að hún hafi fundið fyrir miklum þrýstingi úr ýmsum áttum, meðal annars frá hagaðilum, ráðgjöfum, lánastofnunum og eftirlitsaðilum um að halda óbreyttu fyrirkomulagi í meirihlutanum út kjörtímabilið, þar sem verkefnin séu ærin og D-listinn með hreinan meirihluta.

„Því óskaði ég eftir að fulltrúaráð myndi funda um málið. Sá fundur var aldrei haldinn og í raun ekki vilji fyrir samtali um að ég myndi vera áfram þó ekki væri nema fram á haust,“ segir Fjóla og bætti við að framundan séu töluverðar breytingar hjá Árborg þar sem nýr sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs taki til starfa þann 1. júní og að þrír nýir starfsmenn séu að hefja störf á fjármáladeild.

„Í ljósi alls þessa fannst mér ekki faglegt eða þjóna neinum tilgangi á þessum tímapunkti að gera breytingar nema þá aðeins breytinganna vegna. Fjárhagsleg endurreisn Sveitarfélagsins Árborgar á að mínu viti að vera hafin yfir menn, málefni og pólitískar leikreglur,“ segir Fjóla.

Ætlar ekki í pólitískt karp
„Ég hef lagt mikið kapp á að lyfta orðspori sveitarfélagsins síðastliðin tvo ár og væri því ekki samkvæm sjálfri mér ef ég ætlaði í pólitískt karp á opinberum vettvangi. Það þjónar engum tilgangi. Ég hef lagt mig fram við að vera fagleg í hvívetna og hef notið stuðnings frábærra ráðgjafa bæði við hagræðingu í rekstri sem og tekjuöflunar fyrir sveitarfélagið,“ sagði Fjóla ennfremur og bætti við að hún sé afar stolt af sinni vinnu síðustu tvö ár.

„Komandi árshlutauppgjör mun svo sýna svo ekki verður um villst að við erum sannarlega á réttri leið,“ sagði Fjóla um leið og hún óskaði nýjum bæjarstjóra og meirihluta velfarnaðar í starfi. „Ég mun áfram sitja í bæjarstjórn Árborgar og veita núverandi meirihluta aðhald í komandi verkefnum, íbúum og sveitarfélagi til heilla.“

Lagði hjarta og sál í verkefnið
Þá þakkaði Fjóla starfsfólki, íbúum og samstarfsfólki sínu fyrir samstarfið síðustu tvö ár. „Ég lagði hjarta mitt og sál í verkefnið og er óendanlega þakklát og auðmjúk fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna í þjónustu við íbúa að uppbyggingu sveitarfélagsins míns.“

Fyrri greinSoffía skipuð skólameistari FSu
Næsta greinJón Vignir með bæði mörkin í jafnteflisleik