Ekki vera á ferðinni að óþörfu

Versnandi ferðaveður er nú á sunnanverðu landinu, það hvessir með tilheyrandi skafrenningi og versnandi skyggni, hálku og snjó.

Nú þegar eru tveir bílar fastir á gatnamótum Þrengslavegar og Suðurlandsvegar í austur og þá hefur lögreglan á Selfossi fengið tilkynningar frá vegfarendum um að Lyngdalsheiði sé að verða ófær. Fólk er því beðið um að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er nú hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og ef skoðaðar eru vefmyndavélar þeirra sést að þoka er talsverð í Kömbunum og skyggni því enn verra. Hálka eða snjóþekja er annars á velflestum vegum á Suðurlandi.

Fyrr í dag fór fólksbifreið út af Laugarvatnsvegi við Brekkuskóg vegna hálku. Engin slys urðu á fólki og var fólkið aðstoðað við að ná bifreiðinni aftur upp á veg af bónda í nágrenninu.

Fyrri greinSjö vilja reka mjólkuriðnaðarsafn
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður til austurs