Ekki til fjármunir til að borga af lánum

Fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar hittu Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga á fundi í vikunni þar sem farið var yfir fjárhagsstöðu sveitar­félagsins.

Að sögn Eyþórs Arnalds, formanns bæjarráðs Árborgar, var upplýst á fundinum hvernig bæjar­yfirvöld taka á vandanum. Nefndin metur stöðuna óviðunandi en telur jákvætt að samstaða sé hjá bæjar­fulltrúum allra flokka að taka málið alvarlega.

Að sögn Eyþórs var eftirlits­nefndin upplýst um að stefnt sé að því að ná jöfnuði í rekstri samstæðu bæjarins sem fyrst en erfiðara sé að ná endum saman í rekstri bæjar­sjóðs, sem rekinn var með 600 milljón króna tapi í fyrra.

„Það er gríðarlegt gat sem tekur lengri tíma en eitt ár að stoppa upp í,“ segir Eyþór. Á fundinum kom einnig fram að lítið svigrúm sé til að hækka álögur til að auka tekjur sveitar­félagins. Nefndin hefur bent á að afkoma bæjarsjóðs sé þess eðlis að ekki séu til fjármunir til að borga vexti af lánum, hvað þá afborganir, og ítrekaði kröfu sína um 15 prósenta framlegð af rekstri bæjar­ins.

„Það er langt í land með það,“ segir Eyþór. Næsta skref sé hins­vegar að senda fjárhagsáætlun næsta árs til nefnd­arinnar og vinna að trúverðugri þriggja ára áætlun

Fyrri grein„Velgengnin komin inn í kollinn á mönnum“
Næsta greinSunnlenskt sveitaball á mölinni