Ekki talin frekari hætta á flóðum

Lögreglan á Suðurlandi skoðaði klakastífluna í Hvítá við Kirkjutanga í Grímsnesi í morgun. Áin rennur undir stífluna sem þekur stórt svæði á þessum stað.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ekki sé talin hætta af frekari flóðum að sinni. Klakastíflan var mynduð úr lofti og voru myndirnar sendar til Veðurstofunnar til skoðunar.

Samkvæmt vatnamælum hefur vatnshæð lækkað jafnt og þétt í Hvítá við Brúnastaði frá því í gærkvöldi og bendir það til þess að ísstíflan sé brostin.

Það er mat sérfræðinga hjá Veðurstofunni að sumarbústaðarsvæði á norðurbakka árinnar gætu verið í nokkuri hættu, en minni hætta sé sunnan við ána, þar sem syðri bakkinn liggur hærra í landslaginu.